Skoðun: Gengisfelling Landsmótsdóms segir Sara Ástþórsdóttir

Skoðun: Gengisfelling Landsmótsdóms segir Sara Ástþórsdóttir

Deila

Mikil umræða hefur verið undanfarið í hestaheiminum eftir að Fagráðið í hrossarækt tilkynnti breytingar á framkvæmd yfirlitsýningar kynbótahrossa á Landsmóti sem fer fram nú í sumar. Yfirlitið mun fara fram á hringvelli þar sem 3 hringir eiga vera riðnir og ein ferð á beinni braut. Einnig hefur sú breyting orðið á að einungis skulu riðnar 8 ferðir í fordóm í stað 10. Hægt er að lesa sért til um breytingarnar hér

http://213.167.147.176/hringvallareid-kynbotahrossa-a-landsmoti/

Hestfréttir hefur nú tekið púlsinn á skoðun knapa og ræktenda á þessum miklu breytingum og ekki eru allir par sáttir við ákvörðun fagráðs. Við munum á næstu dögum birta skoðanir virkra knapa og ræktenda varðandi þessar breytingar.

Fyrst höfðum við samband við Söru Ástþórsdóttur hrossaræktanda að Álfhólum í Landeyjum.

Hvernig lýst þér á breytingarnar á sýningu kynbótahrossa á Landsmóti?

„Á síðasta landsmóti vöknuðu menn upp við vondan draum, yfirlitssýningar drógust langt fram úr áætluðum tímaramma. Ástæðan er einföld, hækkun vægis á feti og þ.a.l margir knapar sem reyna að freista gæfunnar og hækka fet á yfirliti.

Mér persónulega finnst ekki boðlegt fyrir fullri brekku af fólki sem vill fá “action” að hver knapinn á fætur öðrum ríði fet og sói dýrmætum tíma þéttriðinnar dagskrár. Ég er ekkert að gera lítið úr fetinu, en það á að vera nóg að dæma það í fordómi. Við megum ekki gleyma því að við erum með ganghest, afkastahest sem hefur 4-5 gangtegundir, ekki einhæfan þrígangshest, þar sem fetið hefur vissulega meira vægi sem hluti af sýningu vegna fábreytni. Ég fer ekkert í launkofa með þá skoðun mína að í stað þess að gera þessar róttæku breytingar á yfirlitssýningunni á LM hefði ég frekar viljað spara tíma með að henda fetinu þar út. Ég er ekki alveg að sjá þetta nýja fyrirkomulag ganga upp útaf ýmsum ástæðum. Á beinni braut sitja allir við sama borð, en það hentar ekki öllum hestum það það sé riðið uppá annaðhvort vinstri eða hægri, og því getur þetta fyrirkomulag skemmt sýningu fyrir þann sem þarf að láta í minni pokann þegar valið er uppá hvaða hönd er riðið, en það virðast ekki hafa verið settar neinar reglur um það, líkt og í úrslitum í öðrum keppnisgreinum.

Með fullri virðingu fyrir dómurum, þá held ég að það verði mjög erfitt að fá réttlátan dóm í svona sýningu, en eftir að ferðum verður fækkað niður í 8, þá hafa þessar ferðir á yfirlitinu enn meira vægi. Það er erfitt að dæma hross á beinni braut sem koma hvert á eftir öðru á sitthvorri gangtegundinni, og kynbótadómarar hafa hingað til beint þeim tilmælum til knapa að hafa gott bil á milli hrossa svo þeir hafi tíma til að glöggva sig á gæðum hvers og eins. Hvað má þá segja þegar þau eru saman á hringnum hvert fyrir öðru á sitthvorri gangtegundinni og á sitthvorum hraðanum? Og eru kynbótadómarar eitthvað öðru vísi en annað fólk, sogast þeirra athygli ekki að flotta hestinum í brautinni eins og athygli áhorfenda og það gleymist að horfa á þessa sem eru aðeins síðri en eru þó að bæta sig frá fordómi?

Hvernig á að stilla upp hraðari gangtegundum, er hægt að ná topp einkunn fyrir skeið á langliðunum? Er ekki hætt við að yngri hrossin verði lúin eftir 3 og hálfan hring á fullum afköstum þegar komið er svo loksins að ferðinni á beinu brautinni þar sem á að hækka skeiðið? Verður ekki meiri hætta á fjórtakti og þ.a.l ágripum þegar þreytt tryppið á að toppa sig í lok sýningar?

Ég hef þá tilhneigingu til að horfa á hlutina með hag hestsins fyrir brjósti og reyna að setja mig í hans spor. Mér finnst þessar sekúndur sem fara í að stoppa í brautarenda og snúa við vera mikilvægar fyrir hestinn til að endurheimta orku áður en hann tekur næsta 300 m sprett (á hvaða gangtegund eða hraða það er). Það verður hins vegar ekki í boði í þessari hringvallarreið að endurnýja orkuna nema allir komi sér saman um að ríða fet, og þá erum við aftur komin á að því að sóa tíma í þéttriðinni dagskrá. Svo er eitt að koma sér saman um að ríða fet og annað að útfæra það…. sumir vilja ríða fet í plús átt aðrir í mínus átt…..

Og hvernig kemur þessi svokallaði landsmótsdómur til að standa varðandi BLUB-ið? Er réttlátt að hann hafi sama vægi og dómur á venjulegri kynbótasýningu þar sem riðnar eru 10 ferðir og 6 á yfirliti?

Mér finnst þetta vera gengisfelling á landsmótsdómi og kynbótasýningar orðnar að meira sýningaratriði heldur en dómi og þ.a.l spurning um hvernig á að reikna svona sýningaratriði inní kerfið?“

segir Sara Ástþórsdóttir sem fer ekki lent með þá skoðun sína að þykja þessi ákvörðun Fagráðs nokkuð út úr kortinu og illa ígrunduð.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD