Tímaritið Eiðfaxi selt / Verður sameinað Hestablaðinu

Tímaritið Eiðfaxi selt / Verður sameinað Hestablaðinu

Deila

Gengið hefur verið frá kaupum Hestablaðsins/Viðskiptablaðsins á hinu gamalgróna og þekkta hestatímariti Eiðfaxa. Ólafur H. Einarsson stjórnarformaður og einn eigenda Eiðfaxa staðfesti þetta í samtali við Hestafréttir. Ætlunin mun vera að ná fram hagræðingu í rekstri með þessu og að sameina útgáfu Hestablaðsins og Eiðfaxa. Athygli vakti einmitt nú fyrir jólin að þá kom Hestablaðið út í fyrsta skipti  í tímaritsformi, prentað  á vandaðan pappír, en alla jafna Hefur Hestablaðið verið prentað í dagblaðsformi. Jens Einarsson ritstjóri Hestablaðsins sagði  í samtali við Hestafréttir í morgun að sér hefðu enn ekki verið tilkynntar neinar breytingar á störfum, hvorki uppsögn á Hestablaðinu né heldur ráðning að nýjum miðli. Jens hefur ritstýrt Hestablaðinu frá upphafi og hann hefur lengi starfað við „hestablaðamennsku“ og er einn reyndasti blaðamaður landsins á því sviði.

 

Eiðfaxi á sér áratuga langa sögu, en það var á sínum tíma stofnað af áhugasömum hestamönnum sem fannst sem það vantaði ferskari miðil í hestaumfjöllun. En fram að því var tímaritið Hesturinn okkar sem gefið var út af Landssambandi hestamannafélaga eina hestatímarit landsins. Meðal þessara frumkvöðla að útgáfu Eiðfaxa voru Gísli B. Björnsson auglýsingahönnuður og Pétur Behrens listmálari, sem báðir voru og eru þekktir hestamenn.

 

Síðar var Eiðfaxi sameinaður Hestinum okkar, og Eiðfaxi hefur einnig  lengi starfað að útgáfu fyrir erlendan markað, bæði með útgáfu á blöðum á ensku og þýsku og eins með því að yfirtaka erlend hestablöð, svo sem Islandshästen í Svíþjóð. Útgáfa Eiðfaxa hefur hins vegar oft gengið upp og niður, og oft hefur verið hart í ári hjá blaðinu. Nú er að sjá hvort útgáfufélagið Myllusetur ehf  muni snúa þessari þróun við, en það gefur út Viðskiptablaðið og fylgirit þess auk Hestablaðsins.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD