Reiðmaðurinn

Reiðmaðurinn

Deila

Reiðmaðurinn er nám á vegum endurmenntunardeildar LbhÍ, hugsað fyrir hinn almenna hestamann. Námið er byggt á hugmyndafræði Reynis Aðalsteinssonar tamningameistara sem auk þess skrifaði mikið af því fræðilega efni sem kennslan nú byggir á. Markmiðið með náminu er að hinn almenni hestamaður fái tækifæri til þess að bæta sig sem hestamann og öðlast þannig dýpri skilning á viðfangsefninu og fyrir vikið meiri ánægju af þessu skemmtilega áhugamáli. Verklegi hluti námsins er kenndur á samtals 16 helgum sem hver spannar hálfan föstudag auk laugardags og sunnudags. Bóklegi hluti námsins er kenndur í fjarkennslu auk einnar helgar á Hvanneyri á hverri önn þar sem nemendum er boðið upp á sýnikennslur í reiðmennsku og fyrirlestra um fræðilegt efni námsins og er það Gunnar Reynisson sem hefur veg og vanda að bóklegri kennslu í náminu. Landbúnaðarháskólinn hefur auk þess verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa í liði með sér úrval reiðkennara sem allir hafa getið sér gott orð á sýninga- og keppnisbrautum víðs vegar um heim.

Alls hafa um 250 manns lokið námi í reiðmanninum víðs vegar um landið en í vetur eru að auki tæplega fimmtíu nemendur sem leggja stund á námið. Síðast liðinn vetur var kennt framhaldsnámskeið í Reiðmanninum á Hellu undir stjórn Ísleifs Jónassonar og þótti það námskeið heppnast afar vel. Því hefur verið ákveðið að bjóða upp á slíkt námskeið víðar um landið nú í vetur til þess að aðstoða reiðmenn sem hlotið hafa grunn menntun í reiðmennsku við að halda áfram að auka færni sína í að móta reiðhestinn, hvort heldur sem markmiðið er að fara í keppni eða að stunda almennar útreiðar. Námskeiðið er hugsað fyrir fólk sem hefur lokið námi í Reiðmanninum eða öðru sambærilegu námi. Námið er byggt upp á fimm verklegum helgum á tímabilinu frá janúar til maí. Reynir Örn Pálmason mun kenna námskeiðið á Króki í Ásahreppi, Heimir Gunnarsson á Miðfossum í Borgarfirði, Halldór Guðjónsson í Spretti og Erlingur Ingvarsson í reiðhöll Léttis á Akureyri. Skráning í námið fer fram á í gegnum heimasíðu LbhÍ: www.lbhi.is/namskeid. Nánari upplýsingar um námið má fá á heimasíðu endurmenntunardeild skólans eða í síma 843-5377.

IMG_6850.JPG

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD