Knapamerki – Markviss menntun í hestamennsku

Knapamerki – Markviss menntun í hestamennsku

Deila

knapamerkin-12345

Hestamennska er ein vinsælasta íþróttagreinin hér á landi og er  í senn keppnis- og almenningsíþrótt. Mikill fjöldi fólks stundar hestamennsku sér til ánægju og lífsfyllingar.  Samneyti við hestinn, líkamleg þjálfun og tengsl við náttúruna er það sem allir hestamenn sækjast eftir.

Góður hestamaður vill ávallt stuðla að því að aðbúnaður hesta í hans umsjón sé eins hestvænn og öruggur og kostur er. En til þess að tryggja það, þarf hann að búa yfir góðri þekkingu á meðferð, notkun og umhirðu hestins, og geta beitt henni. Knapamerkin gefa greiðan og þægilegan aðgang að markvissu og hnitmiðuðu námi í hestamennsku. Námið byggir á afar faglegum grunni og er í sífelldri þróun og undir gæðaeftirliti fagmanna við Háskólann á Hólum.

 

Hvers vegna Knapamerkin?

 

Nám í Knapamerkjum er stigskipt og nemandinn er leiddur stig af stigi, í takti við getu hans og áhuga.  Námið er bæði bóklegt og verklegt og námsþættir sem og námsmat eru stöðluð. Þannig verður menntun og þjálfun hestamannsins markvissari, samræmdari og ekki síst skemmtilegri.

knapamerki-allar

Fimm bækur liggja til grundvallar náminu í Knapamerkjum. Þessar bækur eru einhver umfangsmestu rit um umhirðu og reiðmennsku íslenska hestsins sem til eru. Efni bókanna er byggt á breiðum vísindalegum grunni,  sem og klassískri reiðmennsku. Í bóklegri og verklegri kennslu í Knapamerkjum er farið kerfisbundið í gegnum hverja bók fyrir sig. Þannig verður kennslan afar markviss og hnitmiðuð.  Bækurnar nýtast einnig öllu áhugasömu hestafólki sem uppflettirit, til þess að lesa sér til um helstu málefni sem varða íslenska hestinn. Unnið er að því að gefa bækurnar út á fleiri tungumálum en íslensku, og stuðla þannig að velferð íslenska hestsins á erlendri grundu.

Þjálfunarstig knapans

Þjálfunarstig knapans eru ný af nálinni. Þau sýna á myndrænan hátt stigvaxandi þróun knapans í gegnum Knapamerkin fimm. Helstu námsmarkmið hvers stigs eru sett í samhengi við þjálfunarstig hestsins og áherslurnar endurspeglaðar í verklegum prófum. Í upphafi er jafnvægi knapans í fyrirrúmi en með Knapamerkjanáminu öðlast hann jafnt og þétt meiri stjórn á líkamsbeitingu sinni og aukna getu til að hafa áhrif á hestinn.

 

knapamerkin

Á fyrsta stigi er markmiðið að þjálfa nemandann í réttri og öruggri umgengni við hesta sem og umönnun þeirra. Á baki er fyrst og fremst leitað eftir góðu jafnvægi knapans, með einföldum sætisæfingum, og að hann verði öruggur með sig á hestbaki.

Á öðru stigi er stefnt að því að knapinn verði góður farþegi – að hann þjálfi tilfinningu sína fyrir hreyfingum og takti hestsins.

Á þriðja stigi er markmiðið að knapinn þrói samhæfingu hreyfinga sinna og hafi náð ákveðnum styrk og sveiganleika í ásetu, þannig að hann geti þjálfað hestinn á uppbyggilegan hátt.

Á fjórða stigi er markmiðið að knapinn bæti tækni sína í ábendingagjöf og er hann þjálfaður í að gefa réttar ábendingar á réttum tímapunkti.  Reiðmennska hans verður virkari og hann getur í auknum mæli haft áhrif á rétta líkamsbeitingu hestsins.

Á fimmta stigi getur knapinn stjórnað hestinum með næmni og léttleika og flæði verður í æfingum.  Hesturinn  þarf að vera við taum og beitir líkamanum rétt á öllum gangi.

Uppfærsla á verklegum prófum

Verklegu prófin í Knapamerkjunum hafa verið uppfærð, til samræmis við þjálfunarstig knapans. Örfáum prófatriðum hefur verið breytt eða bætt við en einkum hafa lýsingar á prófatriðum verið samræmdar, þannig að stigvaxandi áherslur í samræmi við þjálfunarstigin séu skýr. Einnig eru dómsatriðum gerð enn betri skil á prófblöðunum.

Þessar breytingar ættu að létta undirbúning fyrir verklegu prófin, bæði fyrir kennara og nemendur, en einnig að auðvelda prófdómurum að gefa markvissa endurgjöf. Í haust verða væntanlega haldin námskeið fyrir prófdómara, þar sem meðal annars verður farið yfir þessar breytingar (auglýst síðar).

Knapamerkjanámskeið

Kennslan í Knapamerkjum er undir handleiðslu menntaðra reiðkennara og fer fram víða um land, hjá hestamannafélögum, í grunn- og framhaldsskólum sem og víðar.

Á vefsíðunni knapamerki.is er meðal annars listi yfir reiðkennara sem bjóða upp á Knapamerkjanámskeið. Best er að hafa samband við reiðkennarana beint, eða afla sér upplýsinga hjá hestamannafélögum. Innritun í námskeið vetrarins er nú þegar hafin þannig að það er um að gera að skrá sig sem fyrst.

 

Fréttir og viðburðir verða einnig birt á Facebook-síðu Knapamerkja.

knapamerki-verkefnisstjori

Útskrift í hestamannafélaginu Neista 2014)

Góða skemmtun í vetur!

Bestu kveðjur

Hlín Mainka  Jóhannesdóttir

(Verkefnastjóri Knapamerkja)

 

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD