Hestakaffihús og Litla hestabúðin á Sólvangi

Hestakaffihús og Litla hestabúðin á Sólvangi

Deila

Fjölskyldan á Sólvangi opnaði nýverið glæsilegt kaffihús og hestatengda gjafavöruverslun í hesthúsinu á hrossaræktarbúi sínu við Eyrarbakka. Þar hefur verið söðlað um og stefnan tekin á hestatengda ferðaþjónustu en þar er einnig boðið upp á reiðkennslu, gistingu í smáhýsum og heimsókn í hesthús. Markmiðið er að færa fólk nær íslenska hestinum með því að gefa fólki tækifæri á að skyggnast inn í heim raunverulegs íslensks hestabúgarðs.

 

,,Ég og foreldrar mínir fluttum á Sólvang árið 2001 og höfum síðan stundað þar hrossarækt, hrossasölu, tamningar og þjálfun ásamt því að hafa boðið upp á reiðkennslu” segir Sigríður betur þekkt sem Sigga Pje. Foreldrar hennar eru þau Elsa Magnúsdóttir og Pjetur N. Pjetursson. En þær mæðgur eru báðar reiðkennarar og öll þrjú eru dómarar. Grétar L. Matthíasson eiginmaður Siggu stendur einnig að uppbyggingunni en þau búa við hlið Elsu og Pjeturs á Sólvangi ásamt dætrum sínum tveimur, Bertu Sóleyju og Elsu Kristínu. Sigga er einnig menntuð sem ferðamálafræðingur, leiðsögumaður og úskrifaðist í vor með MBA gráðu í viðskiptafræðum.

siggapje_glod1

,,Þrátt fyrir að hrossaræktin hafi skilað okkur mörgum góðum gæðingum er ekki mikið upp úr henni að hafa. Í náminu var ég því ávallt að velta fyrir mér hvernig hægt væri að útvíkka reksturinn en byggja þó á þeim góða grunni sem lagður hefur verið” segir Sigga. Í vetur tók hún þátt í 10 vikna viðskiptahraðli Start Up Tourism og þar fóru hjólin að snúast mjög hratt.

 

Sigga hefur ávallt haft áhuga á hestatengdum munum og ákvað því að kanna hvort að aðrir hefðu áhuga á að kaupa slíka muni með því að stofna Litlu hestabúðina á Facebook. Þar hefur hún m.a. boðið til sölu skartgripi, fatnað, listmuni og handverk allt tengt hestum og þá aðallega íslenska hestinum. ,,Viðbrögðin stóðu ekki á sér og ég sá fljótt að þarna var gat á markaðnum og tækifæri til að koma inn með eitthvað nýtt. Það eru til margar hestavöruverslanir en í raun engar verslanir á heimsvísu sem bjóða einungis upp á gjafavöru og minjagripi tengda hestum. Ég fann þó eina í Ástralíu eftir mikla leit” segir Sigga. Hún nefnir einnig að mikið sé til af fallegu handverki víðs vegar um heim tengt íslenska hestinum og stefnan sé að safna saman og búa til vettvang fyrir listamenn að koma þessum vörum á framfæri.

 

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur verið í örum vexti á síðustu misserum og margir ferðamenn hafa áhuga á því að kynnast íslenska hestinum á ferð um landið. Sigga ákvað því að þróa hugmyndina með hestatengdu gjafavöruverslunina enn frekar og opna kaffihús ásamt versluninni í hesthúsinu á Sólvangi, þar sem fólki gæfist kostur á því að kynnast íslenska hestinum í stuttri heimsókn, fá fræðslu um hann og fá tækifæri til að klappa honum ásamt því að taka af honum myndir.

hestakaffi

Kaffihúsið er hannað með það í huga að hesturinn sé ávallt í forgrunni og hvert sem litið er má sjá skírskotun til hesta. ,,Við erum með ljósakrónur með hestum á, málverk og meira að segja kranarnir á snyrtingunni eru einhyrningar og hestar halda á klósettpappírnum. Þetta er tekið alla leið” segir Sigga. Á kaffihúsinu er einnig hægt að sjá inn í hesthúsið og reiðskemmuna og stefnt er á að byggja reiðgerði fyrir framan kaffihúsið, svo að gestir geti notið þess að drekka kaffibollann sinn eða dreypa á léttvíni, borða veitingar og fylgjast með hestunum á meðan. Kaffihúsið er opið alla daga milli 11:00 og 17:00 en þar er m.a. boðið upp á heimabakaðar kökur, flatkökur, smurð rúnsykki ásamt ljúffengu kaffi, léttvíni og bjór.

IMG_1168

Samhliða auknum fjölda ferðamanna á landinu hefur verið mikill vöxtur í hestatengdri ferðaþjónustu. Þær mæðgur Elsa og Sigga hafa stundað reiðkennslu um árabil bæði hérlendis og erlendis og á Sólvangi er boðið upp á reiðkennslu fyrir knapa á öllum stigum, allt frá byrjendum og upp í keppnisfólk. ,,Ég hef verið að ferðast mikið erlendis að kenna á og dæma hesta. Þar hef ég kynnst ótal mörgum eigendum íslenskra hesta og komist að raun um að það vantar meira framboð á reiðkennslu á Íslandi. Við höfum þekkinguna, eigum fjöldan allan af góðum vel þjálfuðum hestum og þeir eru miklu verðmætari þegar við nýtum þá í reiðkennslu fremur en að selja þá undir kostnaðarverði. Við bjóðum fólki á öllum stigum reiðmennsku, bæði Íslendingum og erlendum gestum að koma til okkar í reiðkennslu. Fólk getur stoppað stutt við eða gist hjá okkur í smáhýsi og notið þess að vera hjá okkur í sveitasælunni í einhvern tíma” segir Sigga.

 

Þjónustan á Sólvangi er fjölbreytt og því á að vera eitthvað fyrir alla þá sem að vilja fræðast meira um eða kynnast íslenska hestinum og segist Sigga ekki bara vera að stíla inn á erlenda ferðamenn heldur líka íslenskar fjölskyldur. ,,Við ætlum að reyna að gera eitthvað fyrir íslenskar fjölskyldur í sumar og höfum til að mynda í hyggju að hafa fjölskyldudaga þar sem teymt verður undir börnum ásamt fleiru” segir Sigga.

 

Spennandi verður að fylgjast áfram með þróuninni á Sólvangi en Sigga segir þetta aðeins vera byrjunin. ,,Við ætlum að þróa þetta áfram og í framtíðinni sé ég meðal annars fyrir mér meiri samvinnu við önnur hestatengd ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða upp á hestaferðir. En tilvalið væri að taka til dæmis tvo daga í reiðkennslu hjá okkur áður en farið er í hestaferð” segir Sigga og er full eftirvæntingar um komandi tíma.

 

 

 

 

 

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD