Meistaradeildin í hestaíþróttum: Engin ný lið sóttu um

Meistaradeildin í hestaíþróttum: Engin ný lið sóttu um

Deila

 

Engin ný lið sóttu um þátttökurétt í Meistaradeildinni  nú í vetur og er því útlit fyrir að liðaskipan verði að mestu óbreytt þótt vafalaust muni einhverjar breytingar verða innan einstakra liða og stuðningsfyrirtækja. Áformað hafði verið að ný lið þyrftu að etja kappi við neðasta lið keppninnar í fyrra, en sem fyrr segir verður ekki af því.

 

En liðin sem kepptu í fyrra voru eftirfarandi: Auðsholtshjáleiga og Horseexport; Ganghestar og Margrétarhof; Gangmyllan; Heimahagi; Hestvit og Árbakki; Hrímnir og Export Hestar, Lýsi, Oddhóll og Þjóðólfshagi og Topreiter.

 

Samkvæmt heimildum Hestafrétta eru ýmsar ástæður fyrir litlum áhuga nýrra liða, svo sem að erfitt er að safna saman sterkum knöpum sem hafa aðgang að frambærilegum hrossum allan veturinn. Þá fer mikill tími í keppnina, æfingar og undirbúning, en sá tími er tekinn af annarri vinnu atvinnuknapa. Eins er kostnaður töluverður bæði beinn og óbeinn. Þetta er talið vega þyngra hjá mörgum heldur en von um jákvæða athygli ef vel gengur.

 

Enn ber að nefna að allt stefnir í að keppnin færist nú alfarið vestur yfir Hellisheiði eftir að Fákasel á Ingólfshvoli í Ölfusi  lagði upp laupana. Það getur skipt máli fyrir lið, hvoru megin heiðarinnar þau starfa, og mun lengra verður fyrir mörg liðanna sem eru úr Árnes- og þó einkum Rangárþingi. Líklegt er talið að keppnin verði nær öll haldin í Sprettshöllinni en þó mun vera áhugi á að einhver hluti fari fram í Reiðhöll Fáks í Reykjavík.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD