Rauðurinn, Blesinn og Mósan – skiptar skoðanir eru um nafngiftir hrossa

Rauðurinn, Blesinn og Mósan – skiptar skoðanir eru um nafngiftir hrossa

Deila

Nú hefur hrossanafnanefnd gefið eftir, breytt fyrri ákvörðun og leyft að skráð verði hryssunafnið Mósan, en því hafði áður verið hafnað á þeim forsendum að það samræmdist ekki íslensku máli og málvenjum að eiginnafn sé með ákveðnum greini. Sumir fagna þessu, en aðrir telja það alfarið mál eigenda hrossa hvað þau eigi að heita.
 

Málið er þó ekki svo einfalt að mati þeirra sem starfa innan hesta- og hrossaræktargeirans. Þar er bent á að íslenskt nafn á íslenskum hesti, hvar sem er í heiminum, styrki stofninn og minni á uppruna hrossanna. Þetta sé einnig gert til að losna við það sem sumir kalla ónefni, en nöfn á borð við Lexus, Camus, Kandís og fleiri eru nefnd í því sambandi. Þá hafa sumir bent á að ákveðinn greinir gæti verið notað í daglegu tali, svo sem margir sögðu hross sín vera undan Hrafninum, og var þá alltaf átt við Hrafn frá Holtsmúla, sem þó hét auðvitað aðeins Hrafn. Hið formlega nafn skuli alltaf skráð í samræmi við venjur.

 

Ekki hafa komið fram nein sérstök rök eiganda Mósunnar fyrir þessari nafngift eða nauðsyn hennar, en bent hefur verið á að ef þetta verður útbreitt, þá muni fara að sjást nöfn eins og Rauðurinn, Blesinn, eða Skjónan. Þá verða hross undan Blesanum, Rauðnum og Skjónunni.

 

Ekki er deilt um að þetta er ekki „góð“ íslenska og ekki í samræmi við nafngiftahefð. Fáum mun til dæmis detta í hug að skíra börn Halldórinn, Guðmundinn eða Guðrúnuna….eða hvað? Spurning hvort nú renni upp hið villta vestur í hestanafngiftum, allt verði gefið eftir og við fáum ef til vill að sjá Trump og Clinton, Hillary og Obama sem nöfn á íslenskum hrossum framtíðarinnar?

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD