Ingólfshvoll ( Fákasel) í Ölfusi enn óseldur: Allt í óvissu...

Ingólfshvoll ( Fákasel) í Ölfusi enn óseldur: Allt í óvissu um starfsemi á staðnum

Deila

Jörðin Ingólfshvoll í Ölfusi er enn óseld, en þar hefur um margra ára skeið verið rekin stærsta reiðhöll og innanhússaðstaða fyrir hestamenn á Suðurlandi. Nú síðast var þar til húsa Fákasel, sem stóð fyrir hestaleikhúsi þar sem íslenski hesturinn, saga hans og eiginleikar voru kynntir erlendum og innlendum ferðamönnum og unnendum íslenska hestsins. Tap upp á mörg hundruð milljónir króna varð af rekstrinum og var starfseminni hætt síðastliðinn vetur. Ekkert er í hendi hvað varðar kaupendur eða nýja rekstraraðila að staðnum, en forsvarsmenn Fákasels segja þó að Meistaradeildin í hestaíþróttum sé velkomin eins og áður í vetur kjósi aðstandendur deildarinnar svo. Margir hestamenn á Suðurlandi hafa mikinn áhuga á að reiðhöllin á Ingólfshvoli, Ölfushöllin, verði áfram opin fyrir sýningar og keppni, en ljóst virðist þó að eitthvað mikið þurfi til að koma til að á staðnum megi reka arbæra starfsemi.

 

Eignin er til sölu hjá fasteignasölunni Miklaborg, en ekkert verð er gefið upp í auglýsingu. Einhverjir munu hafa leitað hófanna um kaup en eftir því sem Hestafréttir hafa komist að mun hafa verið mjög langt milli verðhugmynda eigenda og hugsanlegra kaupenda. Flest það sem tilheyrði rekstri Fákasels er til staðar fyrir nýja eigendur, en þó hefur hluti tækjabúnaður verið seldur í eldfjallamiðstöðina Lava á Hvolsvelli samkvæmt heimildum Hestafrétta.

 

Upplýsingar um hvaða aðilar hafa lagt mest fé í kaup á Ingólfshvoli og síðar uppbyggingu Fákasels og þá sem síðar hafa fjármagnað taprekstur liggja ekki fyrir. Ljóst þykir þó að mörg hundruið milljónir króna ef ekki milljarðar muni tapast, og að einhverjir lífeyrissjóðir eða framtakssjóðir í þeirra eigu muni tapa mestu. Nokkrir aðilar sem áttu tiltölulega litlar kröfur á Fákasel munu einnig tapa á viðskiptum sínum við félagið og herma heimildir Hestafrétta að urgur sé í mörgum vegna þessa.

 

Samtals eru húsakynni Ingólfshvols talin vera nærri 4 þúsund fermetrar, en jörðin sjálf er lítil, eða það sem eftir er af henni, aðeins um 50 hektarar.

Á vef fasteignasölunnar er að finna þessa lýsingu á staðnum: „Reiðhöllin er rúmlega 2.000 m² og er ein glæsilegasta reiðhöll landsins. Margar stærstu hestasýningar á Íslandi hafa verið haldnar í húsinu sem rúmar 750 manns í sæti og er aðgengi að henni fyrir hesta og menn með besta móti. Tæplega 500 m² veitingahús er sambyggt og hefur nýlega verið endurnýjað. Ný tæki í eldhúsi. Hlaða og hesthús eru byggð við Reiðhöllina og þar er aðstaða fyrir 80-90 hesta. Á jörðinni eru einnig íbúðarhús og starfsmannahús. Um 50 hektara jörð með umtalsverðum þróunarmöguleikum. Góð aðstaða til reiðmennsku og útivistar á jörðinni. Góð staðsetning um 35 km akstur frá Reykjavík, við þjóðveg 1. Eignirnar bjóða upp á fjölbreytt tækifæri, hvort sem er í ferðaþjónustu eða rekstri hestabúgarðs. Ýmsir þróunarmöguleikar, þ.á.m. liggja fyrir fyrstu drög að hótelbyggingu. Hitaveita er á svæðinu.“

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD