Djákninn á Myrká

Djákninn á Myrká

Deila

Djákninn á Myrká

Ein óhugnarlegasta íslenska draugasagan gerist um jól og segir frá hesti sem var eiganda sínum trúr út fyrir gröf og dauða.

Eygló Svala Arnarsdóttir endursegir. Myndir: Gunnar Freyr Gunnarsson.

Eitt sinn var djákni á bænum Myrká í Eyjafirði. Nafn hans kemur hvergi fram, en heitkona hans hét Guðrún og var þjónustustúlka á Bægisá, hinu megin við Hörgá. Djákninn átti gráan, velfextan hest, sem hann kallaði Faxa. Er leið að jólum reið djákninn að Bægisá til að bjóða Guðrúnu til veislu á Myrká á aðfangadag. Hann sagðist mundu sækja hana í tæka tíð fyrir hátíðarhöldin og bjóst síðan til heimferðar.

Kalt hafði verið í veðri og fannfergi mikið. Hörgá hafði verið frosin þegar djákninn reið til Bægisár og hann gerði ráð fyrir að hann gæti einnig riðið yfir ána á heimleiðinni. En fyrr um daginn hafði skollið á með asahláku og miklum leysingum. Hörgá hafði rutt sig, en er djákninn reið upp með ánni fann hann ísbrú sem hann taldi sig geta riðið yfir. Hikandi hýddi Faxi eiganda sínum og gekk út á ísbrúna. En miðja vegu brast ísinn og þeir steyptust í ána.

Morguninn eftir tók bóndinn á Þúfnavöllum eftir hesti sem stóð neðan við túnið hans. Hann var beislaður og með hnakk, en reiðmaðurinn var hvergi sjáanlegur. Er bóndinn gekk nær þekkti hann Faxa djáknans, blautan og skjálfandi. Bóndinn hafði séð djáknann ríða til Bægisár en ekki koma til baka og illur grunur læddist að honum. Hann gekk upp með Hörgá og fann djáknann örendan á árbakkanum. Á hnakkanum var mikið sár, að líkindum eftir klaka sem hafði skollið á höfði djáknans. Bóndinn sendi boð til Myrkár, líkið var sótt og djákninn jarðaður viku fyrir jól.

Hörgá hafði haldist ófær svo enginn hafði getið fært Guðrúnu hin hörmulegu tíðindi. Á aðfangadag var veðrið stillt og fallegt og hún bjóst við því að djákninn myndi sækja hana eins og hann hafði lofað. Um síðdegið gerði hún sig tilbúna. Þá var bankað. Önnur stúlka fór til dyra, en það var enginn fyrir utan. Guðrún mælti: „Til mín mun leikurinn gjörður, og skal ég að vísu út ganga.“ Í flýtinum hafði hún aðeins gefið sér tíma til að fara í aðra hempuermina, en slengdi hinni yfir öxlina.

Það var dimmt, en tunglið óð í skýjum og varpaði draugalegri birtu á vetrarlandslagið. Guðrún sá Faxa djáknans og mann við hlið hans, sem hún bjóst við að væri heitmaður sinn. Hvorugt þeirra mælti orð frá vörum, en djákninn hjálpaði Guðrúnu á bak, settist sjálfur fyrir framan hana og þau riðu af stað. Við Hörgá voru skarir háar. Er Faxi steyptist fram af skörinni lyftist hattur djáknans upp að afanverðu. Í því braust tunglið fram úr skýjunum og Guðrún sá hvar skein í höfuðkúpuna. Djákninn mælti:

„Máninn líður, dauðinn ríður;

Sérðu ekki hvítan blett í hnakka mínum, Garún, Garún?“

Stjörf af hræðslu svaraði Guðrún: „Sé ég það sem er.“ Hún vissi að djákninn hlyti að vera dáinn fyrst hann gat ekki lengur sagt „Guð“.

Þau riðu áfram og er þau komu að Myrká fór djákninn af baki við kirkjugarðinn og sagði:

„Bíddu hérna, Garún, Garún,

meðan eg flyt hann Faxa, Faxa, upp fyrir garða, garða.“

Djákninn fór með hestinn, en Guðrúnu var litið inn í kirkjugarðinn og sá þar opna gröf. Óttaslegin hljóp hún í átt að kirkjunni og greip í klukknastrenginn. Í því kom djákninn til baka og reif í Guðrúnu og bjóst til þess að toga hana niður með sér í kalda gröfina. Það varð Guðrúnu til happs að hún hafði aðeins farið í aðra ermina, því djákninn hélt í þá lausu. Saumarnir rifnuðu við öxlina og djákninn steyptist ofan í gröfina og moldin mokaðist yfir hann frá báðum hliðum.

Í ofsahræðslu hringdi Guðrún kirkjuklukkunum stanslaust þar til fólkið á Myrká kom hlaupandi og fór með hana inn í bæinn. Er Guðrún hafði gengið til náða birtist draugur djáknans á ný. Vitstola æpti Guðrún á hjálp. Er heimafólkið kom inn í herbergið hvarf djákninn á braut. Þetta endurtók sig á hverju kvöldi og Guðrún mátti aldrei ein vera.

Að lokum var kallaður til galdrakarl úr Skagafirði. Hann lét grafa upp grjóthnullung mikinn og lét velta honum að bænum. Er kvöldaði birtist draugur djáknans og ætlaði inn til Guðrúnar. En með særingum varnaði galdrakarlinn honum inngöngu og lét hann hörfa suður fyrir skálastafn. Þar hvarf vofan ofan í jörðina og galdrakarlinn lét velta hnullungnum yfir.

Enn þann dag í dag liggur djákninn í töfrafjötrum sunnan við Myrká. Guðrún snéri aftur til Bægisár en náði sér aldrei fyllilega eftir hremmingarnar.

Gert fyrir Horses of Iceland – http://www.horsesoficeland.is/community/stories

Endurskrifað af Eygló Svölu Arnarsdóttur

Ljósmyndir teknar af Gunnari Frey Gunnarssyni

Kærar þakkir fyrir og gleðileg jól!

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD