Lið Hrímnis í Vesturlandsdeildinni

Lið Hrímnis í Vesturlandsdeildinni

Deila

Lið Hrímnis er nýtt í Vesturlandsdeildinni. Þar leiða saman hesta sína fimm ungir og efnilegir drengir sem, þrátt fyrir ungan aldur, hafa nú þegar getið sér gott orð í hestamennskunni. Þeir hafa á ferilsskránni bæði íslandsmeistaratitla og þá er einn ríkjandi heimsmeistari í liðinu.

Máni Hilmarsson liðsstjóri Hrímnisliðsins snýr nú aftur í Vesturlandsdeildina eftir árs fjarveru. Hann starfar við tamningar á Stóra-Kroppi í Borgarfirði í vetur en verður þó að teljast á heimavelli í Faxaborg. Það eru sennilega fáir sem hafa eytt fleiri klukkustundum þar við þjálfun en Máni sem hefur stundað tamningar í Borgarnesi undanfarin ár. Máni hefur átt góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni undanfarin ár og vöktu þeir Prestur frá Borgarnesi verðskuldaða athygli saman. Þeir urðu meðal annars Íslandsmeistarar í fimmgangi ungmenna saman árið 2016 og toppuðu það svo með því að landa heimsmeistaratitli í Hollandi í sumar. Þá hlaut Máni hin eftirsóttu Feather Prize verðalun FEIF á heimsleikunum. Máni er vel ríðandi í vetur og nefnir þau Lísbet frá Borgarnesi, Dalvar frá Dalbæ og Loga frá Ármóti sem líklega kandídata í deildina.

Húni Hilmarsson kemur nýr inn í deildina. Húni er eins og Máni bróðir sinn á heimavelli í Faxaborg en hann hefur stundað hestamennsku í Borgarnesi af krafti undanfarin ár en starfar nú hjá Gunnar Arnarsyni á Grænhól (Auðsholtshjáleigu) í Ölfusi. Húni ber sig vel og segir hestakost vetrarins spennandi án þess að gefa neitt meira upp að sinni.

Þorgeir Ólafsson er á sínu þriðja ári í deildinni og gengur nú til liðs við Hrímnisliðið en hann starfar við tamningar og þjálfun að Fákshólum hjá Jakobi Svavari Sigurðssyni. Þorgeir hefur látið til sín taka í Vesturlandsdeildinni undanfarin ár og reið meðal annars bæði til úrslita í fjórgangi og gæðingafimi í fyrra og endaði í 10. sæti einstaklingskeppninnar.

Guðjón Örn Sigurðsson er fæddur og uppalinn á Skollagróf í Hrunamannahreppi og stundar nú nám í búfræði við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Guðjón er nýliði í deildinni en hann hefur undanfarin ár tekið þátt í uppsveitadeildinni og var þar í sigurliði Vesturkots í fyrra. Klárhryssan Kotra frá Steinnesi og skeiðhryssan Lukka frá Úthlíð verða vopn Hrunamannsins ógurlega í vetur en eins og Guðjón kemst sjálfur að orði þá verður það að teljast mikil búbót fyrir Vesturlandsdeildina að fá alvöru Hrunamann til leiks.

Konráð Axel Gylfason er þriðji nýliðinn í deildinni þó þar fari nú enginn nýliði í hestamennskunni. Konráð er frá Sturlureykjum í Reykholtsdal en starfar núna við tamningar á Ingólfshvoli eftir eins og hálfs árs dvöl á meginlandi Evrópu þar sem hann vann við tamningar. Konráð á að baki glæstan feril upp alla yngri flokkana og hefur til að mynda tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari í hringvallargreinum og tvisvar sinnum átt sæti í landsliði Íslands.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD