Kynbótasýningar 2018 og val kynbótahrossa á Landsmót

Kynbótasýningar 2018 og val kynbótahrossa á Landsmót

Deila

Nú er búið að stilla upp áætlun fyrir kynbótasýningar árið 2018 og er hún komin inn á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (rml.is) undir Kynbótastarf/Hrossarækt/Kynbótasýningar. Opnað verður á skráningu á kynbótasýningarnar um miðjan apríl og nánar verður þá tilkynnt um skráningarfresti á einstakar sýningar.

Sýningaáætlun 2018:

• 22.5 – 25.5   Sprettur

• 28.5 – 1.6 Selfoss

• 28.5 – 1.6 Akureyri

• 28.5 – 29.5 Fljótsdalshérað

• 4.6 – 8.6 Sprettur

• 4.6 – 15.6 Hólar í Hjaltadal

• 4.6 – 15.6 Gaddstaðaflatir

• 11.6 – 15.6 Borgarnes

• 11.6 – 15.6 Víðidalur

2.7 – 8.7 Landsmót í Víðidal

• 30.7 – 3.8 Miðsumarssýning Akureyri

• 23.7 – 3.8 Miðsumarssýning Selfoss

• 20.8 – 24.8 Síðsumarssýning Gaddstaðaflatir

• 20.8 – 24.8 Síðsumarssýning Borgarnesi

• 20.8 – 24.8 Síðsumarssýning Hólar

Landsmót verður haldið á félagssvæði Hestamannafélagsins Fáks í ár. Að undangenginni umræðu í haust hefur Fagráð í hrossarækt ákveðið halda sig við sama fyrirkomulag við val kynbótahrossa inn á mótið og var fyrir Landsmót 2016; að það sé ákveðinn fjöldi efstu hrossa sem vinnur sér þátttökurétt á mótið. Ákveðið var að hnika aðeins til fjölda hrossa í nokkrum flokkum miðað við síðasta mót. Í ljósi umræðu, m.a. á aðalfundi Félags hrossabænda, var ákveðið að bæta við fimm hestum í flokki fjögurra vetra stóðhesta og einnig fimm hestum í elsta flokki stóðhesta. Er þetta gert þar sem háa aðaleinkunn þurfti til að vinna sér þátttökurétt í þessum flokkum á síðasta móti. Þá var einnig niðurstaðan að fækka fimm vetra hryssum um 5; úr 35 hryssum í 30. Því er miðað við að hafa 170 kynbótahross á mótinu núna, fjöldann í hverjum flokki má sjá í töflu hér að neðan. Til að auðvelda bestu klárhrossum landsins að komast inn á mótið verður 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið. Þegar kynbótasýningar byrja í vor verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið (til dæmis fleiri en ein hryssa í 15. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna) þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eins verða eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita fyrir ákveðna dagsetningu, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu. Þá er hugmyndin að hafa úrvalssýningu kynbótahrossa á mótinu og bjóða þeim hrossum sem vinna sér ekki þátttökurétt á mótinu en búa yfir sérstökum úrvalseiginleikum þátttöku í þeirri sýningu. Nánari útfærsla á þessari hugmynd verður kynnt síðar.

Flokkur:

Fjöldi:

7v. og eldri hryssur:

15

6v. hryssur:

30

5v. hryssur:

30

4v. hryssur:

20

4v. hestar:

20

5v. hestar:

20

6v. hestar:

20

7v. og eldri hestar:

15

Samtals:

170

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD