Mætir með Nökkva

Mætir með Nökkva

Deila

Meistaradeildin: Jakob Svavar mætir með Landsmótssigurvegarann Nökkva í gæðingafimina!

Augu allra munu beinast að Jakobi Svavari Sigurðssyni í Meistaradeildinni í hestaíþróttum á fimmtudagskvöldið. Jakob Svavar hefur þegar sigraði í fyrstu þremur greinum keppninnar í ár; í fjórgangi, slaktaumatölti og fimmgangi, og nú er það gæðingafimi.

Nokkrar vangaveltur hafa verið manna á milli hvaða hross Jakob Svavar hygðist mæta með, í grein sem hann segir vera sína uppáhaldsgrein, og hefur einkum verið rætt um Júlíu frá Hamarsey eða Konsert frá Hofi í því sambandi, en nú hefur hann hins vegar staðfest í samtali við Hestafréttir að það er enginn annar en Landsmótssigurvegarinn í B-flokki frá 2016 sem hann kemur með: Nökkvi frá Syðra-Skörðugili.

Víst er að ekkert er öruggt í keppninni og marga keppinauta Jakobs Svavars þyrstir í að ná af honum efsta sætinu, en þó verður að segja að þeir Nökkvi verða að teljast mjög sigurstranglegir. Nökkvi er fæddur 2008 og orðinn töluvert sjóaður. Hann hefur í kynbótadómi hlotið 9.5 fyrir bæði tölt og brokk og 9.0 fyrir bæði vilja og geðslag og fyrir fegurð í reið. Þá sigraðu þeir Jakob og Nökkvi B-flokkinn á Landsmótinu á Hólum og voru þar ekki minni kempur en Loki frá Selfossi og Árni Björn Pálsson í öðru sæti.

Nökkvi er undan Aðli frá Nýja-Bæ sem er sonur Adams frá Meðalfelli, en móðir Nökkva er Lára frá Syðra-Skörðugili undan Glampa frá Vatnsleysu.

Hestafréttir spá því að spennustigið verði hátt þegar Jakob Svavar ríður Nökkva inn um dyr TM hallarinnar í Viðidal á fimmtudagskvöld. Hann hefur sagt að Nökkvi sé í miklu formi og betri en áður, og stefnt verði með hann á Landsmót 2018 í Reykjavík.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD