Þórarinn Ragnarsson, sigurvegari í Uppsveitadeildinni 2018

Þórarinn Ragnarsson, sigurvegari í Uppsveitadeildinni 2018

Deila

Síðasta mótið í Uppsveitadeildinni fór fram Föstudagskvöldið 13. apríl með skemmtilegri og spennandi keppni í tölti og fljúgandi skeiði.

Fyrir keppnina var mjótt á munum í stigakeppni einstaklinga þar sem Þórarinn Ragnarsson í liði Vesturkots var efstur með 29 stig, en fast á hæla hans var liðsfélaginn Hans Þór Hilmarsson með 28 stig. Jöfn í 3. og 4. sæti voru þau Matthías Leó Matthíasson í liði Subway/Stangarlæks 1 og Rósa Birna Þorvaldsdóttir í liði Hófadyns/Hekluhnakka með 23 stig.

Lið Vesturkots hafði forystu í stigakeppni liða með 72 stig, en næst á eftir kom lið Hófadyns/Hekluhnakka með 67 stig.

Það var því ljóst að hart yrði barist um sigur í einstaklingskeppninni á lokakvöldinu og að keppinautar Vesturkots myndu velgja þeim undir uggum.

Töltmeistarar í Uppsveitadeildinni 2018.

f.v. Rósa Birna Þorvaldsdóttir og Arthúr frá Baldurshaga, sigurvegarar. Bjarni Bjarnason á Hnokka Frá Þóroddsstöðum í öðru sæti og Þórarinn Ragnarsson á Leik frá Vesturkoti í þriðja sæti.

Að lokinni forkeppni í tölti stóðu þau Rósa Birna Þorvaldsóttir og Arthúr frá Baldurshaga í liði Hófadyns/Hekluhnakka best að vígi með einkunnina 6,77. Næst á eftir þeim komu þeir Bjarni Bjarnason á Hnokka frá Þóroddsstöðum úr liði Subway/Stangarlæks 1 með einkunnina 6,60. Þriðju inn í A úrslit voru Þórarinn Ragnarsson og Leikur frá Vesturkoti með 6.30 í einkunn. Hans Þór Hilmarsson á hryssunni Forsjá frá Túnsbergi var svo fjórði inn í A úrslitin með einkunnina 5,90. Þeir tveir voru í liði Vesturkots.

Efst inn í B úrslit urðu þau Erna Óðinsdóttir og Vákur frá Hvammi I úr liði Friðheima/Hvanns I með 5,70 í einkunn og í kjölfarið fylgdi Gunnlaugur Bjarnason á Valtý frá Leirubakka úr liði Hófadyns/Hekluhnakka með 5,67 í einkunn. Þriðji inn í B úrslit varð Hermann Þór Karlsson á Goða frá Efri Brúnavöllum I í liði Baldvins og Þorvalds með 5,57 í einkunn. Jöfn inn í B úrslit urðu þær Sara Rut Heimisdóttir á Brák frá Stóra Vatnsskarði úr liði Hófadyns/Hekluhnakka og Arnhildur Helgadóttir á Gleði frá Syðra Langholti 4 úr liði Vesturkots með 5.50 í einkunn.

Eftir forkeppnina í tölti var lagt á fljúgandi skeið. Þórarinn á Hákoni frá Sámsstöðum leiddi eftir fyrstu umferð en þau Helgi Eyjólfsson úr liði Vesturkots á Funa frá Hofi, Bjarni á Randver frá Þórodsstöðum og Rósa Birna á Flipa frá Haukholtum fylgdu fast á eftir. Í annarri umferð fóru hlutirnir að gerast. Hans á Vorsól frá Stóra Vatnsskarði og Bjarni á Randver hjuggu nærri hraðameti sem sett var árið 2015, en Þórarinn og Hákon gerðu sér litið

Skeiðmeistarar í Uppsveitadeildinni 2018.

f.v. Bjarni Bjarnason sigurvegari, Þórarinn Ragnarsson og Hans Þór Hilmarsson.

fyrir og slógu metið á tímanum 2,90 sekúndum. Bætingin var 1/100 úr sekúndu. Þessir þrír skeiðuðu allir í gegnum brautina á tíma undir 3 sekúndum. Þegar þriðja umferðin rann í gegn var ljóst að Bjarni og Randver voru ekki búnir að segja sitt síðasta orð. Þeir félagar gerðu sér lítið fyrir, bættu metið um 2/100 úr sekúndu og þeyttust yfir brautina á 2,88 sekúndum.

Bjarni og Randver sigruðu því skeiðið á nýju mótsmeti. Í öðru sætu urðu þeir Þórarinn og Hákon, en Hans og Vorsól hrepptu þriðja sætið.

Þá var komið að B úrslitum þar sem Sara Rut og Brák frá Stóra Vatnsskarði hrepptu sæti í A úrslitum með einkunnina 6,44 eftir jafna keppni. Næstur á eftir komu þeir Gunnlaugur og Valtýr með 6,17 í einkunn og þriðju í B úrslitum urðu þær Arnhildur og Gleði með einkunnina 6,00.

Rósa Birna og Arthúr gáfu ekkert eftir í A úrslitum og sigruðu töltið með jafnri og öruggri sýningu sem skilaði þeim 7,06 í lokaeinkunn. Bjarni og Hnokki sýndu hvað í þeim býr og hrepptu annað sætið með 6,89. Í þriðja sæti enduðu Þórarinn og Leikur með einkunnina 6,67 og þar á eftir komu þær Sara Rut og Brák með 6,67. Hans og Forsjá urðu svo í fimmta sæti með einkunn upp á 5,89.

Það fór því svo í stigakeppni liðanna að Vesturkot stóð efst með 144 stig. Lið Hófadyns/Hekluhnakka kom næst á eftir 131 stig. Í þriðja sæti endaði lið Subway/Stangarlæks 1 með 86 stig, fjórðu lið Friðheima/Hvamms 1 með 55 stig og lið

Sigurvegari Uppsveitadeildarinnar 2018.

Þórarinn Ragnarsson úr liði Vesturkots.

Baldvins og Þorvaldar ráku lestina með 53 stig.

Einstaklingskeppnin var öllu jafnari. Þórarinn Ragnarsson úr liði Vesturkots vann einstaklingskeppnina með 56 stig. Næstur honum kom Hans Þór Hilmarsson, einnig í liði Vesturkots með 52 stig. í þriðja sæti varð Rósa Birna Þorvaldsdóttir úr liði Hófadyns/Hekluhnakka með 49 stig.

Þetta árið fengu 18 knapar stig í Uppsveitadeildinni og fimm lið voru skráð til keppni. Uppsveitadeildin saknaði keppenda úr hestamannafélaginu Loga, en enginn keppandi frá þeim mætti til leiks að þessu sinni.

Reiðhöllin á Flúðum þakkar öllum keppendum fyrir skemmtilega keppni í vetur sem og starfsmönnum mótsins fyrir umgjörð þess. Langþráð breyting á einkunnaskráningu var tekin í gagnið sem einfaldar til muna alla tölvuvinnslu, þó hún hafi ekki verið hnökralaus. En með aukinni færni í notkun Sportfengs þá horfir tölvuvinnsla á mótum til betri og einfaldari vegar.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD