Kynnumst Ligu

Kynnumst Ligu

Deila

Liga Liepina er 29 ára gömul og elskar að mynda Íslenska hestinn. Hún er fædd í Lettlandi en flutti til Ísland 14 ára gömul. Liga segist hafa verið hestasjúk síðan hún man eftir sér en hún byrjaði í reiðskóla í Lettlandi á stórum hestum og hefur stundað hestamennsku síðan.

Við hjá Hestafréttum ákváðum að forvitnast aðeins um Ligu.

Hvenær byrjaðir þú að mynda?

“Ég hef haft áhuga á ljósmyndun síðan ég var unglingur. Fjölskylda mín var mjög dugleg að ferðast um landið á sumrin þegar ég var yngri og var ég oftast á bak við myndavélina að taka náttúrumyndirnar. Þá var ég bara leika mér, án þess að vita neitt um ljósmyndun þannig séð. Eignaðist svo alvöru vél fyrir ca 3 árum síðan og vildi læra að nota hana almennilega. Eyddi endalausum tíma á netinu að læra um tæknileg atriði, samsetningu, birtu, myndvinnslu ofl. Hef fengið mikla hjálp frá ljósmyndaranum Denise Landerberg og er afar þakklát fyrir það. Ég er enn þá að læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Upprunalega ætlaði ég að taka landslagsmyndir, en þar sem hestar eru stór hluti af lífinu mínu endaði ég á því að mynda þá. Ég hafði ekki hugmynd fyrst um hvað hestaljósmyndun (equine photography) er stór í heiminum.”

Þá spurðum við Ligu hvað henni finnst skemmtilegast að mynda

“Hesta, hesta og hesta!”

Af hverju að mynda Íslenska hestinn?

“Við erum svo heppin að búa í svona gríðarlega fallegu landi með einstaka náttúru. Og íslenski hesturinn er svo mikill partur af þessari náttúru. Það er bara eitthvað einstakt við að sameina þetta tvennt í mynd.”

Liga hefur tekið fullt af æðislegum myndum, við forvitnuðumst hvort hún hefði einhverja uppáhalds mynd sem hún hefði tekið.

“Mér þykir vænt um allar mínar myndir, enda vinna og tilfinningar á bakvið hverja og eina mynd. En það er ein mynd sem stendur upp úr, sem ég tók út í Belgíu af show jumping hesti. Ástæðan er sú, að ég var búin að ákveða þessa mynd í hausnum á mér löngu áður,  en ég fékk tækifæri til að taka hana.  Ég var í skýjunum þegar hún kom út nákvæmlega eins og ég hafði hugsað mér.”

Hér er myndin:

Lítur Liga upp til einhverja í ljósmyndabransanum?

“Ég fylgist með mörgum hestaljósmyndurum sem ég lít upp til, en það eru 2 sem eru alveg sérstakir að mínu mati – Wiebke Haas og Raphael Macek.”

Einhver ráð fyrir fólk sem vill byrja að mynda íslenska hestinn?

“Varðandi tæknileg atriði – ég þekki allt of marga sem eiga góðar myndavélar en vita lítið sem ekkert hvernig eigi að nota þær. Mæli mikið að sækja námskeið þar sem farið er yfir stillingar á vélinni – það hjálpar mikið að ná betri myndum. Svo þegar farið er út að mynda – hugsa aðeins hvernig þú getur notað umhverfið í kringum þig og passa að finna rétta sjónarhornið til að láta hestinn líta út sem best. Svo bara prófa sig áfram og hafa gaman!”

Hægt er að fylgjast með Ligu hér:

 Instagram: @liga.liepinaa

Facebook: https://www.facebook.com/ligaliepinaequinephoto/

 

 

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD