Stýra steinaldarmenn Landsmóti hestamanna?! – Skorað á alla gesti LM að birta...

Stýra steinaldarmenn Landsmóti hestamanna?! – Skorað á alla gesti LM að birta myndskeið á netinu

Deila

Stjórn Landsmóts hestamanna, sem nú er að hefjast í Reykjavík, hefur hótað öllum þeim sem taka upp myndskeið af keppni á mótinu mögulegum  kærum og málssókn með fébótakröfum. Vísar Sigurbjörn Magnússon formaður stjórnar LM 2018 til þess að gerður hafi verið einkaréttarsamningur um útsendingar frá mótinu. Öllum gestum er því óheimilt að taka „upp hvers konar myndskeið að (svo sic!) sýningum og keppni á mótinu og sýna, hvort sem er í sjónvarpi eða á interneti….“. Þessar ítrekanir og áréttingar stjórnar LM2018 eru tilkomnar vegna þess að Hestafréttir höfðu auglýst þá þjónustu við eigendur hrossa, að taka upp myndskeið af hrossunum til að nota sem sölumyndbönd eða til dæmis til að kynna stóðhesta.

Hestafréttir hafa rætt við nokkra eigendur hrossa og gesti Landsmóts um þetta og eru öll viðbrögðin á einn veg: „Hvernig dettur stjórn Landsmótsins í hug að þetta sé hægt á tímum nútímatækni“ sagði einn. Annar sagði að halda mætti að…“steinaldarmenn sitji þarna við stjórnvölinn, þetta er Landsmót 2018 en ekki Landsmót 1950!“ sagði hann, og einn enn sagði „að þetta minnir nærri því á Sovétríkin gömlu, þar sem ljósritunarvélar voru bannaðar. Ég hélt að sjálfstæðismaðurinn Sigurbjörn Magnússon einn útgefenda Morgunblaðsins vissi betur!“ Og kona frá Selfossi sem við hittum hafði þetta að segja: „Þetta er fáránlegt og í raun absúrd vitleysa. Ég skora á alla 10 þúsund Landsmótsgestina að taka upp myndskeið á símana sína og birta úti um allt, á heimasíðum sínum, á instagram, á Facebook, Snapchat og hvar sem þeim dettur í hug. Látum svo stjórn Landsmóts hefja málaferli gegn okkur öllum!“

 

Bréf Landsmóts 2018 til Hestafrétta fer hér á eftir í heild:

 

„Til Fjölnis Þorgeirssonar, forsvarsmanns vefmiðilsins Hestafrétta.

Í tilefni af frétt á www.hestafréttum.is þann 25. júní s.l. þar sem segir m.a.: „Hestafréttir ætla að mynda og taka upp hross á landsmóti eftir pöntunum. Pantanir berist á meilið [email protected]“  vill stjórn LM 2018 vekja athygli á því að þessi fyrirætlan er með öllu óheimil og er farið fram á að Hestafréttir hætti þegar í stað að auglýsa með þessum hætti og láti af þessari fyrirætlan.

Í umsókn um fjölmiðlaskírteini á Landsmóti hestamanna 2018 sem forsvarsmaður Hestafrétta hefur staðfest með rafrænum hætti segir m.a.:

„Sérstök athygli er vakin á því að LM2018 ehf. hefur gert einkaréttarsamninga um sjónvarpsútsendingar frá mótinu. Öllum handhöfum fjölmiðlaskírteinis sem og öðrum gestum er þess vegna óheimilt að taka upp hvers konar myndskeið að sýningum og keppni á mótinu og sýna, hvort sem er í sjónvarpi eða á interneti og hvort sem er í beinni eða seinkaðri útsendingu. Þó er fjölmiðlum, t.d. vefmiðlum, heimilt að senda út stutt myndskeið að eigin vali í tengslum við almennan fréttaflutning af mótinu. Myndskeiðið skal vera að hámarki 90 sekúndur. Eigin upptökur annarra miðla eru óheimilar, nema veitt hafi verið skriflegt leyfi áður að undangenginni umsókn. Ef myndskeið er sýnt, t.d. á vefmiðli, með þessari heimild, skal nafn eða annað auðkenni þeirrar sjónvarpsstöðvar sem einkaréttinn á birt ef hægt er. Þess skal sérstaklega getið að í þessari heimild felst að eftir að frásögn af atburðinum er ekki lengur fréttnæm er nýting myndskeiða ekki lengur heimil. Haft verður eftirlit með óheimilum upptökum á meðan á mótinu stendur og varða brot á þessari reglu afturköllun fjölmiðlaskírteinis og brottrekstri af mótssvæðinu.“

Auk framangreinds skal það áréttað að brot gegn ofangreindum skilmálum kann að varða við fébótar- og refsiákvæði höfundalaga nr. 73/1972, með áorðnum breytingum.

Virðingarfyllst,

f.h. stjórnar LM 2018 ehf.

Sigurbjörn Magnússon, formaður.“

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD