Lítið vinsælir Landsmótssigurvegarar?

Lítið vinsælir Landsmótssigurvegarar?

Deila

Tveir glæsilegir stóðhestar stóðu uppi sem nýir sigurvegarar á nýafstöðnu Landsmóti í Reykjavík; þeir Frami frá Ketilsstöðum í B-flokki og Hafsteinn frá Vakursstöðum í A-flokki gæðinga, en knapar þeirra voru sem kunnugt er Elin Holst og Teitur Árnason, en þau hafa bæði keppt lengi á hestunum, einkum Elin. Báðir hestarnir komu vel fyrir og þótt keppnin væri hörð voru þeir að flestra mati vel að sigri komnir, báðir að sigra á landsmóti í fyrsta skipti; Frami 11 vetra en Hafsteinn tíu vetra.

Margir hafa hins vegar haft á orði að erfitt sé að skilja hve fá afkvæmi eru til undan hestunum, enda hafa þeir töluvert verið í sviðsljósinu fyrir þennan hápunt ferils þeirra; undan Hafsteini eru til dæmis aðeins skráð 15 afkvæmi og undan Fram aðeins 18 afkvæmi samkvæmt Worldfeng. Þeir hafa því einhverra hluta vegna ekki heillað hrossaræktendur, og það þótt báðir séu þeir áberandi í íþæróttakeppni sem nú er aðalatriði í keppni á íslenskum hestum og báðir eru þeir einnig með frábæra kynbótadóma. Hafsteinn hefur hæst hlotið 8.70 í einkunn en Frami hefur 8.68. Margir mun lægra dæmdir hestar eiga miklu fleiri afkvæmi.  Þá vantar ekki að þeir eru stórættaðir, Frami er sonur gæðingaföðurins Sveins Hervars frá Þúfu en Hafsteinn er undan hinum kunna Álfasteini frá Selfossi og þaðan hefur hann skjótta litinn.

Nú er bara að sjá hvort nýafstaðið landsmót komi hestunum í tísku, en eins og vitað er þá eru vegir tískustrauma órannsakanlegir jafnt í hestamennsku sem tónlist, fatnaði eða hverju sem er!

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD