Kynbótasýning á Selfossi: Hansa stóð efst allra hryssa

Kynbótasýning á Selfossi: Hansa stóð efst allra hryssa

Deila

Skörungshryssan Hansa frá Ljósafossi stóð efst allra hryssa á kynbótasýningunni sem var að ljúka á Selfossi. Hún hlaut þá einstöku einkunn 8,77 sem skiptist í 8,35 fyrir byggingu og hvorki meira né minna en 9,05 fyrir kosti eins og áður hefur komið fram hér á Hestafréttum. Jakob Svavar Sigurðsson sýndi hryssuna, en ræktandi hennar er Björn Þór Björnsson og er hann eigandi ásamt Kristjáni Gunnari Ríkharðssyni, sem er eigandi Efri-Rauðalækjar í Rangárvallasýslu ásamt þeim Guðmundi Björgvinssyni og Evu Dyröy. Hansa er undan Álfssyninum Hákoni frá Ragnheiðarstöðum og Keilisdótturinni Sunnu Rós frá Úlfljótsvatni. Hansa er orðin átta vetra og hefur nokkrum sinnum verið sýnd áður af þeim Sigurði Vigni Matthíassyni og Jakobi Svavari Sigurðssyni. Undan hryssunni er til eitt afkvæmi, hryssa undan Ómi frá Kvistum.

Eins og oft áður á miðsumars- og síðsumarssýningum komu fram mörg ágæt hross á Selfossi, flest sýnd áður og ekki mörg í yngsta aldurflokki. Ellefu hryssur í flokki sjö vetra og eldri náðu fyrstu verðlaunum, og jafn margar í sex vetra flokknum. Tíu fimm vetra hryssur náðu hinum eftirsótta fyrstu verðlaunamúr, en aðeins ein fjögurra vetra hryssa var sýnd og náði hún ekki yfir 8.00 í aðaleinkunn.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD