Vargur frá Leirubakka stóð efstur stóðhesta á Selfossi

Vargur frá Leirubakka stóð efstur stóðhesta á Selfossi

Deila

Vargur frá Leirubakka stóð efstur stóðhesta á nýafstaðinni Miðsumarsskynbótasýningu á Selfossi. Vargur, sem er sex vetra hlaut í  sköpulagseinkunn 8.09 og í hæfileikadómi 8.58 sem gera 8.39 í aðaleinkunn. Hann er með prýðilegar einkunnir, til dæmis 9.0 fyrir bæði tölt og brokk og 8.5 fyrir skeið. Raunar hlaut Vargur næst hæstu einkunn allra hrossa á sýningunni, aðeins Hansa frá Ljósafossi var hærri.  Vargur er undan Svaka frá Miðsitju og svo er hann samkvæmt Worldfeng síðasta afkvæmi þeirrar frægu kynbótahryssu Emblu frá Árbakka. Sýnandi á Selfossi var Matthías Leó Matthíasson en eigandi og ræktandi Vargs er Anders Hansen.

Í flokki stóðhesta sjö vetra og eldri náðu þrír hestar fyrstu verðlaunum, þar sem Ás frá Kirkjubæ var efstur með 8.31, sýndur af Hjörvari Ágústssyni, fjórir sex vetra hestar náðu yfir 8.0 þar sem Vargur var hæstur sem fyrr segir, en enginn í flokki fimm og 4ra vetra hesta náðu fyrstu verðlaunum.

Á sýningunni á Selfossi var Guðlaugur Antonsson formaður dómnefndar en meðdómendur þau Arnar Bjarki Sigurðarson og Rebecka Frey.

Senn fer sýningahaldi að ljúka á þessu ári, en þó eru eftir þrjár síðsumarssýningar, á Gaddsstaðaflötum við Hellu, á Hólum í Hjaltadal og í Borgarnesi. Allar hefjast þær 20. ágúst næstkomandi.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD