Ævintýraleg uppbygging í Sumarliðabæ

Ævintýraleg uppbygging í Sumarliðabæ

Deila

Miklar framkvæmdir eru nú í gangi á bænum Sumarliðabæ í Holtum í Rangárvallasýslu, þar sem fjárfestirinn og athafnamaðurinn Birgir Már Ragnarsson og kona hans Silja Hrund Júlíusdóttir eru að byggja upp mikinn „hestabúgarð“ eins og farið er að nefna slíka staði hér á landi. Birgir Már hefur verið með hrossarækt og hestamennsku undir nafninu Svarthöfði og hefur hann keypt nokkur dýr hross á undanförnum misserum og einnig komið að keppni í Meistaradeildinni. Birgir Már er annars að mestu búsettur í Lundúnum og hann hefur á umliðnum árum starfað náið með Björgólfi Thor Björgólssyni í ýmsum arðbærum fjárfestingum og viðskiptum.

Ráðsmaður í Sumarliðabæ verður Ólafur Ásgeirsson.

Í Sumarliðabæ var til skamms tíma rekið stórt kúabú, en fyrir nokkrum árum komst jörðin í eigu Þorsteins Hjaltested á Vatnsenda, og svo þaðan í eigu Birgis Más. Búið er að byggja mikla reiðhöll, breyta og stækka eldri hús fyrir hesthús, aðstöðuhús og móttökuhús, verið er að gera reiðvelli og reiðvegi og aðstöðu utandyra, íbúðarhús á staðnum hefur verið stækkað mikið og svo mætti lengi telja. Fjöldi iðnaðarmanna, verktaka og verkamanna hefur unnjið að framkvæmdunum undanfarið ár og fullyrða heimildamenn Hestafrétta að heildarkostnaður við verkefnið verði töluvert á annan milljarð króna.

Eftir því sem næst verður komist segja heimildamenn Hestafrétta, verður hesthús og reiðhöll tekin í notkun fyrir áramót, en framkvæmdir munu svo halda áfram á næsta ári.

Sumarliðabær er sem fyrr segir í Rangárvallasýslu ekki langt frá Suðurlandsvegi. Bærinn er mitt á milli Fosshóla og Hestheima, sem byggðir voru út úr Sumarliðabæ, en í Fosshólum, Hestheimum og Þjóðólfshaga stunda hjónin Sigurður Sigurðarson og Sigríður Arndís Þórðardóttir mikla starfsemi í hrossarækt, tamningum og ferðaþjónustu. Það stefnir því allt í að lífið í hestamennskunni á þessum slóðum sé enn að aukast!

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD