Myndband og myndir frá Skrapatunguréttum 2018

Myndband og myndir frá Skrapatunguréttum 2018

Deila

Hestafréttir skelltu sér í stóðréttir og smölun í Skrapatungurétt um síðastliðna helgi– en réttin er miðja vegu milli Blönduóss og Skagastrandar – við Þverárfjallsveg. Afréttur heimamanna fyrir stóðhross er Laxárdalur – en sá liggur samhliða einum fallegasta dal landsins; Langadal. Heimamenn bjóða gestum að taka þátt í smölun og rekstri og fulltrúi Hestafrétta þáði boðið.

Þátttakendur geta lagt af stað annaðhvort frá Gautsdal eða riðið upp Strjúgsskarð. Stóði er svo smalað til norðurs og til réttar að Kirkjuskarði og rekið þaðan í Skrapatungurétt. Heildarleiðin er rúmlega 20 km löng og tekur nánast allan daginn að farea, þar sem stóðið er hvílt reglulega.

Að Kirkjuskarði er áð í nokkurn tíma og þar taka menn fram nikkuna og gítarinn og syngja svo undir tekur í fjallasal – undir styrkri stjórn Skarphéðins Einarssonar. Sama gildir um Skrapatungurétt og aðrar stóðréttir á landinu að stóðhrossum fækkar, fyrir um 15-20 árum komu til réttar yfir 1.000 hross í Skrapatungurétt – en í dag eru þau tæplega 200. Sú þróun skýrist líklega bæði af fækkun hrossa í landinu, blóðmerar eru heimavið og sparihrossin líka. Reiðmenn voru hinsvegar vel á þriðja hundraðið að þessu sinni og góð stemming.

Það er svo réttað í Skrapatungurétt á sunnudegi, degi eftir smölun og rekstur. Meðfylgjandi eru myndbönd og myndir frá þessum skemmtilegu dögum frá Skrapatunguréttum 2018.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD