Spurningar til frambjóðenda

Spurningar til frambjóðenda

Deila

Framundan er kosning til formanns Landssambands hestamanna, þar sem bæði núverandi formaður og varaformaður hafa lýst yfir framboði sínu til formanns. Það eru þau Lárus Ástmar Hannesson og Jóna Dís Bragadóttir, sem um ræðir. Lítið hefur komið fram um skoðanaágreining þeirra eða mismunandi áherslur í ýmsu því sem varðar málefni hestamanna. Hestafréttir hafa því ákveðið að senda nokkrar spurningar til frambjóðendanna til að leitast við að upplýsa um hvað komandi formannskosningar snúast.

Spurningarnar fara hér á eftir og er óskað eftir að stutt en greinargóð  svör berist Hestafréttum fyrir kl 17.oo á morgun, miðvikudaginn 26. september.

  1. Hvernig hefur samstarfi fiormanns og varaformanns verið háttað undanfarið, hefur verið uppi persónulegur eða efnislegur ágreiningur?
  2. Núverandi formaður var kjörinn við nokkuð óvenjulegar aðstæður, þar sem upp úr hafði soðið vegna hugmynda þáverandi stjórnar L.H. að færa Landsmót hestamanna úr Skagafirði, sem þó hafði áður verið samþykkt. Hver er afstaða ykkar til Landsmóta? Á að ákveða til langrar framtíðar hvar þau verða haldin?
  3. Teljið þið koma til greina að fækka landsmótsstöðum, til dæmis niður í tvo? Eða jafnvel niður í einn? Hvaða staður/staðir ættu það þá að vera?
  4. Margir benda á að svo virðist sem nýliðun í starfi hestamannafélaga sé lítil og að til dæmis færri og færri í yngri flokkum stundi keppnishestamennsku. Hafið þið hugmyndir um hvernig bregðast megi við slíkri þróun?
  5. Staðreynd er að færri og færri áhorfendur koma á nærri öll hestamót, jafnvel fer gestum á Landsmót fækkandi. Hvernig viljið þið að L.H. bregist við þessari þróun?
  6. Öll framtíð íþóttastarfs og íþróttafélaga byggist á því að ungt fólk fái áhuga á íþróttinni. Hvernig er hægt að gera hestamennsku að valkosti við aðrar íþróttagreinar á borð við knattspyrnu, handbolta, leikfimi, ballet, skylmingar eða hvaðeina sem keppir um athygli barna og unglinga?
  7. Styðja ríki og sveitarfélög nægilega vel við bakið á hestamennsku á landsvísu?
  8. Sitja hestamenn við sama borð og aðrar íþróttir þegar kemur að fjárveitingum frá hinu opinbera?
  9. Eitthvað annað sem þið óskið eftir að koma á framfæri?

Með vinsemd,

Fjölnir Þorgeirsson

Ritstjóri Hestafrétta.

 

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD