Svör formannsefna L.H: “Formaður og stjórn hafa oft misst taktinn í tangónum”...

Svör formannsefna L.H: “Formaður og stjórn hafa oft misst taktinn í tangónum” segir Jóna Dís Bragadóttir

Deila

Hér koma svör frá Jónu Dís Bragadóttur við spurningum Hestafrétta vegan framboðs til formanns L.H.

1 Hvernig hefur samstarfi formanns og varaformanns verið háttað undanfarið, hefur verið uppi persónulegur eða efnislegur ágreiningur?

Það liggur í augum uppi að ég væri ekki að bjóða mig fram til formanns ef mér fyndist ég ná öllu mínu besta út úr samstarfinu sem spurt er um. Þá á ég bæði við í viðfangsefnum og vinnubrögðum. Formaðurinn annars vegar og stór hluti stjórnarinnar hins vegar hafa því miður oft á tíðum misst taktinn í tangónum.

2. Núverandi formaður var kjörinn við nokkuð óvenjulegar aðstæður, þar sem upp úr hafði soðið vegna hugmynda þáverandi stjórnar L.H. að færa Landsmót hestamanna úr Skagafirði, sem þó hafði áður verið samþykkt. Hver er afstaða ykkar til Landsmóta? Á að ákveða til langrar framtíðar hvar þau verða haldin?

Ég held að það hljóti að vera farsælast að ákveða landsmótsstaði með löngum fyrirvara. Í lögum okkar er gert ráð fyrir að landsmótsstaðir liggi fyrir a.m.k. fimm árum áður en til þeirra kemur. Landsmótið er eitt af fjöreggjum hestamennskunnar og nái ég kjöri sem formaður mun ég leggja mig verulega fram við að efna til samræðna sem geta leitt okkur til farsællar niðurstöðu og víðtækrar langtímasáttar um  þetta eilífðarþrætuepli.

3. Teljið þið koma til greina að fækka landsmótsstöðum, til dæmis niður í tvo? Eða jafnvel niður í einn? Hvaða staður/staðir ættu það þá að vera?

Samanber svar mitt fyrir ofan tel ég best að svörin við þessari spurningu komi alls ekki frá einum formanni og heldur ekki frá einni samstíga stjórn heldur miklu stærri hópi sem vonandi nær saman um meginatriðin.

4. Margir benda á að svo virðist sem nýliðun í starfi hestamannafélaga sé lítil og að til dæmis færri og færri í yngri flokkum stundi keppnishestamennsku. Hafið þið hugmyndir um hvernig bregðast megi við slíkri þróun?

Sem betur fer hafa nokkur hestamannafélög á undanförnum árum fikrað sig áfram með alls kyns hugmyndir til þess að ná til fleiri ungmenna. Ég hef fylgst ágætlega með því starfi og það er alveg ljóst að margar þessara leiða má halda áfram að þróa og yfirfæra til annarra félaga. Það er að mínu viti eitt af hlutverkum LH að gjörþekkja þetta starf hjá félögunum og miðla þekkingu á milli þeirra ásamt því að aðstoða þau við frekari hugmyndavinnu og tengingar við bæði sveitarfélögin og menntamálasvið ríkisins eins og mögulegt er.

5. Staðreynd er að færri og færri áhorfendur koma á nærri öll hestamót, jafnvel fer gestum á Landsmót fækkandi. Hvernig viljið þið að L.H. bregist við þessari þróun?

Landsmótin, rétt eins og allt annað mótshald á okkar vegum, þurfa í senn að laga sig að og sætta sig við breyttta tíma, bæði hvað varðar tækninýjungar sem auðvelda útsendingar frá mótunum og einnig t.d. samkeppni við aðra afþreyingu. Við sjáum samt dæmi um að beinar útsendingar frá alls kyns íþróttaviðburðum draga ekki endilega úr aðsókn áhorfenda og vonandi getum við þróað landsmótin þannig að þau haldi áfram að laða til sín áhorfendur. Breytingin úr hálfgerðri útihátíð í stemmningu fjölskylduhátíðar var t.d. farsælt skref.

6. Öll framtíð íþóttastarfs og íþróttafélaga byggist á því að ungt fólk fái áhuga á íþróttinni. Hvernig er hægt að gera hestamennsku að valkosti við aðrar íþróttagreinar á borð við knattspyrnu, handbolta, leikfimi, ballet, skylmingar eða hvaðeina sem keppir um athygli barna og unglinga?

Svarið liggur langt í frá í augum uppi. Við vitum hvað þarf að gera en ekki hvernig. Enn vil ég treysta á mátt samræðunnar og fjöldans. Ég vil gjarnan leiða þessa umræðu en ég geri hvorki kröfur til mín né annarra að töfra upp úr hattinum einföld svör við þessari spurningu.

7. Styðja ríki og sveitarfélög nægilega vel við bakið á hestamennsku á landsvísu?

Það er að mínu mati ekki forgangsatriði að reyna að stökkbreyta þessum stuðningi. Það er margt ágætlega gert af hálfu ríkis og sveitarfélaga og ég vil efla samstarfið við þessa aðila, þekkingu þeirra og skilning eins og frekast er unnt. Það leiðir vonandi til þess að stuðningurinn aukist með árunum og þá væntanlega í gegnum einstök ný verkefni og þá ekki síst í æskulýðs- og ungmennastarfinu.

8. Sitja hestamenn við sama borð og aðrar íþróttir þegar kemur að fjárveitingum frá hinu opinbera?

Mér er a.m.k. ekki kunnugt um að á því sem einhver grundvallarmunur.

9. Eitthvað annað sem þið óskið eftir að koma á framfæri?

Aðallega vil ég láta í ljós þá von mína að orðræðan í aðdraganda formannskosninganna á komandi landsþingi verði málefnaleg og uppbyggjandi. Ég hef orðið vör við að sumum finnst skrýtið að formaður fái á sig mótframboð. Sjálfri finnst mér það eðlilegasti hlutur í heimi í félagsskap sem grundvallar allt sitt starf á lýðræði og þar sem stjórnendur sækja umboð sitt til félaganna. Vonandi getum við öll verið sammála um þetta grundvallaratriði.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD