Svör formannsefna LH: “Ef við getum ekki þolað skoðanamun erum við á...

Svör formannsefna LH: “Ef við getum ekki þolað skoðanamun erum við á vitlausum stað” segir Lárus Ástmar

Deila

Hér fara á eftir svör Lárusar Ástmars Hannessonar við spurningum Hestafrétta vegan formannskosninga í Landssambandi Hestamannafélaga:

 

Hvernig hefur samstarfi fiormanns og varaformanns verið háttað undanfarið, hefur verið uppi persónulegur eða efnislegur ágreiningur?

Samstarf mitt við Jónu Dís hefur lengst af verið með miklum ágætum þó ekki séum við alltaf sammála en það er eðlilegt. Ef við getum ekki þolað að um skoðanamun sé að ræða erum við á vitlausum stað. Við erum kosin sem einstaklingar og eigum alltaf að vinna þannig. Stjórn vinnur best ef styrkleikar allra fá að njóta sín, verkefni dreifast og við virðum skoðanamun. Stjórnsýslan á að vera opin og aðgengileg.  Við höfum leitt óvanalega mörg stór mál til lykta sem hafa orðið hestamennskunni til framdráttar.  Það hefur einmitt verið styrkur stjórnanna sem starfandi hafa verið frá því ég var kosinn formaður haustið 2014 að þær hafa haft á að skipa úrvals einstaklingum sem hafa verið tilbúnir til að leggja mikið af mörkum af einskærri ástríðu fyrir málefni hestamanna.

Núverandi formaður var kjörinn við nokkuð óvenjulegar aðstæður, þar sem upp úr hafði soðið vegna hugmynda þáverandi stjórnar L.H. að færa Landsmót hestamanna úr Skagafirði, sem þó hafði áður verið samþykkt. Hver er afstaða ykkar til Landsmóta? Á að ákveða til langrar framtíðar hvar þau verða haldin?

Landsmótin eru stórkostlegir viðburðir  og okkar verkefni er að gera mótin þannig að þeir sem heimsækja þau fari brosandi heim og  fara strax að hlakka til næsta móts. Hestakosturinn batnar stöðugt, reiðmennskan eflist og fleiri úrvalsknapar geysast fram völlinn. Það eru því þættirnir sem snúa að því að mynda alvöru “hestamóts stemningu”  þar sem gleðileg samvera við aðra hestamenn móta minningar sem kalla okkur á næsta landsmót hvar sem það er. Það er nauðsynlegt að hafa nægan tíma til undirbúnings fyrir mótshaldara.  Við verðum að lágmarki að virða þær vinnureglur sem miðað er við hjá LH en það er að búið sé, í það minnsta, að skrifa undir viljayfirlýsingu um mótssvæði 5 ár fram í tímann og samningar séu undirritaðir að lágmarki þremur árum fyrir mótið. Í mínum huga má þessi tími vera lengri. Við höfum frá 2014 skrifað undir þrjá landsmótssamninga sem eru fyrir mótin 2016, 2018 og 2020. EInnig hefur verið undirrituð viljayfirlýsing um landsmót í Spretti árið 2022. Þetta gerðum við allt á fyrstu tveimur árunum.  Á næsta ári  þarf að klára mögulega samninga við Sprettara og auglýsa eftir mótshöldurum fyrir árið 2024.  Öll óvissa og hringl er vond eins og dæmin sanna.  Ákvörðunin með að færa landsmótið 2016 frá Vindheimamelum og heim að Hólum var mjög farsæl. Þar varð til frábær landsmótsstaður og við bættum aðstöðu Háskólans á Hólum verulega. Við getum verið mjög stolt af þessari djörfu ákvörðum enda fékk mótið fádæma góða dóma.

Teljið þið koma til greina að fækka landsmótsstöðum, til dæmis niður í tvo? Eða jafnvel niður í einn? Hvaða staður/staðir ættu það þá að vera?

Það er svosem ekkert svæði með einhverskonar skilgreiningu sem landsmótssvæði frekar en önnur. Það verður þó að segjast eins og er að þegar við tölum um landsmótssvæði teljum við gjarnan upp svæðin þar sem þegar hafa verið haldin landsmót en það eru Rangárbakkar (Hella), Víðidalur  (Reykjavík) og Hólar í Hjaltadal. Öll hafa þessi svæði kosti og galla sem landsmótssvæði. Svæði Spretts mun einnig fá tækifæri ef áhugi er fyrir hendi og samningar nást og verður forvitnilegt að sjá hvernig það svæði ber viðburð sem landsmót. Ekki tel ég ráðlegt að um fleiri staði verði að ræða að svo stöddu.  Mín skoðun er að ekki eigi að vera einn landsmótsstaður en ákveðin einföldun yrði ef stöðum yrði fækkaði niður í t.d. þrjá.  Það má þó ekki gerast með yfirboði heldur verður það að þróast í þá átt ef verða vill eða samtökin taki afstöðu um það. Umræðan verður að vera hófstillt og sanngjörn og skoðanamunur leyfilegur því það er mín reynsla að ekkert vantar á að við höfum skoðanir á þessum málum og er það vel.   Fyrir landsmótið 2018 var gerður samningur sem gerbreytti framkvæmdar- og rekstrarfyrirkomulagi mótanna og var það  mjög farsæl ákvörðun. Nú sjá mótshaldarar bæði um framkvæmd og rekstur mótanna. Mótshaldarar greiða LM ehf (LH og BÍ) þóknun. Ég er þeirrar skoðunar að  þóknunin til  LM eigi að vera ákveðið hlutfall af miðaverði t.d. 10%

Margir benda á að svo virðist sem nýliðun í starfi hestamannafélaga sé lítil og að til dæmis færri og færri í yngri flokkum stundi keppnishestamennsku. Hafið þið hugmyndir um hvernig bregðast megi við slíkri þróun?

Sem betur fer er það ekki algild þróun að fækki í yngri flokkum en því miður algengt. Það sem er einna neikvæðast þegar kemur að þátttöku ungra knapa er að ungu knaparnir nánast allir tengjast inní hestamennskuna og hafa því aðgengi að hestum og aðstoð. Okkar verkefni er að gefa áhugasömum knöpum sem ekki hafa aðgengi að því sem til þarf möguleika á að hefja hestamennsku. Það má ekki vera of mikill kostnaður fyrir nýja knapa að hefja leik.  Við þurfum að sækja fram með samstilltu átaki milli hestamannafélaganna og LH (æskulýðsnefnd og menntanefnd).  Eitt hefur tíðkast erlendis og hef ég einnig heyrt af hér á landi en það er að tveir knapar deili með sé hesti og þeim kostnaði sem fylgir. Einnig er mikilvægt að hvetja til þess að grunnskólar landsins bjóði uppá hestaval einhverskonar með áherslu á lítið vana knapa.

Staðreynd er að færri og færri áhorfendur koma á nærri öll hestamót, jafnvel fer gestum á Landsmót fækkandi. Hvernig viljið þið að L.H. bregist við þessari þróun?

Í þessari umræðu verðum við að taka til greina hversu mikil aukning hefur orðið á mótum og viðburðum. Keppnistímabilið er ekki lengur 4 mánuðir heldur 10. Stórir viðburðir í reiðhöllum innanlands sem utan og allra handa deildarkeppnir. Allt er þetta gott og greininni til framdráttar. Ég er viss um að heildaraðsókn og áhorf hefur aukist en dreifingin er mikil og okkar viðfangsefni er fyrst og fremst að auka aðsókn að landsmótunum okkar og í því sambandi hef ég nefnt nokkur atriði en vil nefna hér tvennt til viðbótar sem er í vinnslu og umræðu. Það hefur verið neikvætt fyrir landsmótin að meistaramót margra landa hefur verið stuttu eftir landsmótin og knapar ekki komið á landsmótin þar sem þeir þurfa að vera heima að þjálfa keppnishestana sína. Við höfum verið að vinna að því í okkar alþjóðasamstarfi að landsmótin fái aðra helgina í júlí og löndin klári sín meistaramót fyrir landsmót. Það mun auka aðsókn erlendra lykilknapa. Með auknu samstarfi milli Norðurlandanna hefur fengist staðfest að meistaramót norðurlandanna verða fyrir landsmót 2020 eða vel á eftir. Næsta verk í þessu er að vinna þessu land víðar. Önnur áhugaverð umræða sem vert er að opna á og ég heyrði fyrst hjá formanni danska hestasambandsins, henni Mie Trolle. Hugmyndin er þá sú að stokka upp allt okkar kerfi á þann veg að landsmótin verði þriðja hvert ár, heimsmeistaramótin þriðja hvert ár og svo verði norðurlandamótin og miðevrópumótin þriðja hvert ár. Við gætum þá fundið fjórðungsmótunum pláss ef þurfa þykir. Allavega verðum við að vera opin fyrir hugmyndum og taka umræðuna.

Öll framtíð íþóttastarfs og íþróttafélaga byggist á því að ungt fólk fái áhuga á íþróttinni. Hvernig er hægt að gera hestamennsku að valkosti við aðrar íþróttagreinar á borð við knattspyrnu, handbolta, leikfimi, ballet, skylmingar eða hvaðeina sem keppir um athygli barna og unglinga?

Á þessari upptalningu sem hér fer á undan má sjá hversu mikil samkeppni er um frítíma unga fólksins. Svörin við þessari spurning koma að hluta hér í svarinu framar. Grunnurinn er að finna leiðir þar sem kostnaður er eitthvað sem flest heimili ráða við og félögin og skólarnir komi að málum. Með tilkomu reiðhalla víða um land aukast möguleikarnir á reglulegum æfingum og uppbyggingu.

 

Styðja ríki og sveitarfélög nægilega vel við bakið á hestamennsku á landsvísu?

Flest sveitarfélög standa vel við bakið á greininni með framlögum og aðstoð. Örugglega er það þó misjafnt en sveitarstjórnarfólk er yfirleitt meðvitað um mikilvægi þess að byggja upp fjölbreytta og góða afþreyingarmöguleika. Með því verður sveitarfélagið samkeppnishæft og ákjósanlegt til búsetu. Ríkið hinsvegar má leggja mun meira til greinarinnar ekki síst með tilliti til hversu miklu greinin skilar í kassa þjóðarinnar.  Við eigum því að gera kröfu á aukið framlag í hin ýmsustu verkefni sem nýtast greininni.

Eitthvað annað sem þið óskið eftir að koma á framfæri?

Fyrir fjórum árum gaf ég kost á mér til formennsku í Landssambandi hestamannafélaga. Aðstæður voru sérstakar og verkefnin stór og snúin. Mér var treyst fyrir LH skútunni.  Okkur í stjórn LH tókst vel að sigla úr strandinu og höfum meira og minna siglt lens eftir það. Gott samstarf hefur verið milli aðila innan greinarinnar og er það sífellt að aukast milli aðila og eins á alþjóðavísu.   Gott samstarf er lykil þáttur í áframhaldandi uppbyggingarstarfi LH.

Hestamannakveðjur

Lárus Ástmar Hannesson, formaður Landssambands hestamannafélaga

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD