Líkamleg þjálfun – þol ll

Þolþjálfun hests byggist á því að hækka loftfirrða þröskuld hans. Til að hækka hann þarf að auka líkamlegt álag hests frá vanabundnu álagi nokkrum sínnum í viku a.m.k. hálftíma í einu til að líkami hans skilji að álagsbreytingin er komin […]

Þolþjálfun hests byggist á því að hækka loftfirrða þröskuld hans. Til að hækka hann þarf að auka líkamlegt álag hests frá vanabundnu álagi nokkrum sínnum í viku a.m.k. hálftíma í einu til að líkami hans skilji að álagsbreytingin er komin til að vera og fari því í breytingar á líkamanum til að mæta auknu álagi.

Álagið á þjálfunartímanum þarf einnig að vaxa þannig að það haldist í hendur við vaxandi hækkun þröskuldsins annars hættir þröskuldurinn að lyftast. Líkamlegar breytingar, sem verða þegar vel tekst til með þolþjálfunina, eru helst þessar. Hjartað stækkar til að geta dælt meira blóði í hverju slagi út í líkamann. Súrefnið er fest á rauðu blóðkornin og berst með þeim með blóðinu út um líkamann þar sem mestur hluti þess er notaður til orkumyndunar.

Miltað í hrossum hefur þá náttúru umfram miltað í okkur að geta sprautað aukaskammti af rauðum blóðkornum út í blóðið til að auka flutningsgetu þess á súrefni þegar þörf er á aukinni orku. Aukning á rauðum blóðkornum hefur mælst í rannsóknum vera allt að 70% þegar þolþjálfunin er komin í hámark en hún kveikir á innspýtingarnáttúru hestsmiltans. Háræðum fjölgar í vöðvum líkamans en þar fara fram skiptin á súrefni og koltvísýringi í blóðinu. Orkustöðvum, sem eru í vöðvafrumum líkamans og sjá um brennslu næringarefna, fjölgar við þolæfingar.

Hafa skal í huga að hámörkun þols er náð hjá veðhlaupahestum af Thoroughbredkyni á 8 til 11 mánuða tímabili þegar þjálfað er 6 daga vikunnar og a.m.k. eina klukkustund í einu samkvæmt erlendum rannsóknum. Ætla má að þol íslenskra hesta sé almennt aðeins brot af því sem það gæti verið þar sem fjöldi þolþjálfunarvikna íslenskra hesta er sá sami og fjöldi þolþjálfunarmánuða fyrrgreindra hesta og þykir það oft vera mikil og nóg þolþjálfun.

Algengt er að í upphafi þjálfunar sé farið of geyst af stað á þann hátt að álagið er of mikið, þ.e. hestur notar orku sem myndast með loftfirrðri öndun. Afleiðingarnar verða uppsöfnun andlegar og líkamlegrar spennu, sem geta leitt til kvíða og rangra líkamsbeitingar sem svo koma í veg fyrir frekari árangur. Eins er það algengt að álagið sé ekki nógu mikið í hvert skipti, sem þjálfað er, til lyfta loftfirrða þröskuldinum frekar upp þegar líður á þjálfunartímabilið og síðan hitt að það er oftast of stutt til að hámarka þolið. Eins geta slys og álagsmeiðsl sett strik í reikninginn þegar framganga þjálfunar er geysileg.

Að gefa hestum frí á haustin er gamall íslenskur siður. Hér áður fyrr þá fengu þeir frí fram á vor þegar þurfti að nota þá aftur til bústarfa. Þeir þurftu frí til að fitna og fitan var þeirra fóður til að lifa af veturinn því fóður var af skornum skammti og hrossum naumt skammtað ef þeim var skammtað yfirleitt eitthvað til að éta. Að gefa hestum frí seinni part sumars og fram að áramótum eins og nú er siður gerir það að verkum að þeir hafa ekkert gert nema að éta sér til óbóta og skíta þriðjung úr árinu. Afleiðingin er sú að þolið kemst í sögulegt lágmark og fitan í sögulegt hámark. Tvennt þarf þá að gera; koma hesti í þol og megra. Að taka svona hest og koma í reiðhestahold og reiðhestaþol á nokkrum mánuðum er fyrir margan hestinn helvíti á jörð. Fæstir tvífætlingar, sem eru í áramótastöðu margra íslenskra reiðhesta, geta ekki án stöðugrar áfallahjápar í formi ráðlegginga og hvatninga frá sérfræðingum, sálfræðingum, einkþjálfurum og matarfræðingum farið að éta minna og hreyfa sig meira til að komast í heilsusamlegt ástand. Þol hests minnkar lítið fyrstu 3 til 4 letivikurnar segja rannsóknir og reynsla margra hestamanna styður það. Síðan fer þolið að minnka tiltölulega hratt og eftir 3 til 4 mánuði er lítið eftir sem þýðir að byrja verður upp á nýtt eftir svo langt hlé.

Þekkir þú þol hestsins þíns? Finnst þér þú fara vel með tímann þinn með því að byrja alltaf upp á nýtt eftir hverja haustbeit? Finnst þér þú vera nýta hestinn þinn vel ef hann er alltaf að vinna undir getu því hann hefur ekki hámarkað þolið? Heldur þú að haustbeitin fari vel með líkamlega og andlega heilsu hestsins þíns?

Með kveðju
Magnús Lárusson
www.urvalshestar.is